miðvikudagur, 26. mars 2008

Sorpa



Sorpa er sífellt að bæta vefinn sinn um flokkun og endurvinnslu. Það sem er gaman að sjá á bæði vef Sorpu og Landverndar er hversu mikla áherslu þeir leggja á fræðslu fyrir börn. Það á án efa eftir að skila sér. Sífellt fleiri skólar fá Grænfánann, vonandi eiga þessi börn eftir að taka vandamálið traustari tökum en við.


Sorpa er með nýuppfærða flokkunartöflu sem hægt er að fá senda heim til sín. Einfaldlega sendið póst á sorpa@sorpa.is og biðjið um að fá senda flokkunartöflu. Þessi tafla á heima í hverju eldhúsi við flokkunaraðstöðuna. Þessi tafla hjálpar manni einnig mikið við að skipuleggja flokkunarstöð. Hvernig á ég að skipuleggja flokkunarstöðina, á ég að hafa margar ruslafötur, hvað má fara saman osfrv. Við munum fara mjög ítarlega í þetta ferli í næstu póstum. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur vef Sorpu vel því þar er mikið að finna. T.d. hvar næstu grendargáma er að finna og endurvinnslustöðvar. Þar er einnig að finna upplýsingar um jarðgerð fyrir þá sem hafa tækifæri og vilja til þess en Reykjavíkurborg gaf út bækling um jarðgerð sem þó virðist vera eitthvað kominn til ára sinna. Hann er engu að síður nokkuð góður sérstaklega svona á fyrstu skrefum heimilisjarðgerðar.

Hvernig byrja ég?

Framsetning á efni um umhverfisvernd heimilanna er ótrúlega ómerkilegt, dreyft og torfundið. Ýmsar stofnanir, félagasamtök og jafnvel fyrirtæki hafa þó sett ágætis efni á Vefinn.
Á síðu Landverndar er kafli sem kallast Vistvernd í verki , þar er að finna ágætis bækling sem kallast Skref fyrir skref: Vistvernd að verki sem gefinn er út af Landvernd og Umhverfisráðuneytinu. Þetta er ágætis bæklingur og kemur manni fljótt á sporið. Ég hvet alla til að kynna sér bæklinginn vel en ekki prenta hann út heldur frekar lesa á netinu.
Við höfum ákveðið að fylgja þessum leiðbeiningum að einhverju leiti, meira um það síðar.
Ef þið vitið um einhverjar skemmtilega síður endilega commentið.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Ákvörðunin

Við lítum á okkur sem umhverfisvæn, tölum töluvert um umhverfisvernd, erum á móti stóriðju osfrv. Samt höfðum við einhvernvegin aldrei látið verkin tala, við hálf skömmuðumst okkar fyrir að segjast vera umhverfisvæn en flokka svo ekki sorpið, eiga tvo bíla og hamstra plastpoka í matvörubúðunum. Við ákváðum því að taka okkur taki og reyna að gerast umhverfisvænni.
Við erum ósköp venjuleg fjölskylda, hjón með 1 árs strák og lítinn hund. Við vorum sammála um að fara hægt af stað, engar öfgar heldur láta þetta gerast náttúrulega og eðlilega. Við byrjuðum á því að selja annan fjölskyldubílinn, héðan í frá ætluðum við að nota sama bílinn, hjóla og prófa almenningssamgöngur. Það verður að segjast að það var mun þægilegra að eiga tvo bíla en hægt og rólega kemmst maður að því að með smá skipulagningu er ekkert mál að vera einbíla. Það hjálpar til að vera tilbúinn að hjóla og með aðstöðu til þess í vinnunni. Meira um það síðar.
Það kom þægilega á óvart hvað fjárhagur heimilisins varð léttari við að losna við annan bílinn.
Þessi fyrstu skref voru þó mun torveldari en við gerðum ráð fyrir, einna helst voru það praktísk atriði eins og hvernig er best að flokka, hugmyndir um flokkunarkerfi, hvað nota eigi í stað plastpoka osfrv. Í þessu ferli kviknaði sú hugmynd að blogga um þessa tilraun okkar og um leið að segja frá reynslu okkar. Við ætlum því að fjalla um hvernig við verðum umhverfisvænni, hvað við lærum í þessu ferli og hvað reynist okkur vel og hvað ekki.
Þetta er Grænland!